Eftir Katrín Ósk Sigurdórsdóttir
•
26. mars 2025
Á fimmtudaginn í síðustu viku tóku nemendur í 7. bekk Grundaskóla þátt í fallegu verkefni. Verkefnið er styrkt af Menningarsjóði Akraneskaupstaðar og gengur undir nafninu ,,Að brjóta 1000 trönur’’. Leiðbeinendur verkefnisins eru þær Borghildur Jósúadóttir og Bryndís Siemsen en báðar eru þær fyrrum kennarar við skólann. Borghildur kom og kenndi nemendum 7. bekkjar að brjóta trönur, en trana er heilagur og táknrænn fugl í Japan. Origami er aldagamalt japanskt pappírsbrot og segir þjóðtrúin að með því að brjóta 1000 trönur á einu ári verði ósk manns uppfyllt. Trana er orðin friðartákn um allan heim og ætla Borghildur og Bryndís ásamt fleirum að brjóta 1000 trönur fyrir friði í heiminum. Okkur í 7. bekk þótti ákaflega vænt um að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim.