Við í Grundaskóla vinnum markvisst að því að byggja upp og endurbæta bæði skólahúsnæðið okkar og skólalóð. Í vor og í sumar verður unnið að öðrum áfanga í endurgerð skólasvæðis. Nú á að lagfæra svæði fyrir framan B-álmuna (unglingastigið) og upp með suðurhlið skólans að mötuneyti.
Sjá fjólublásvæðið á myndinni afmarkað með rauðri brotalínu.
Gengið er endanlega frá frágangi á göngustígum, hjólasvæðum, gróðri o.fl. eins og sjá má á þessari mynd. Einnig er aðgengi fyrir alla tryggt með tengdum stígum og brautum.
Ef við skoðum einstaka hluta þessarar framkvæmdar má sjá að byggja á vandaðan timburpall fyrir framan mötuneytið þar sem möguleiki er að borða úti eða læra í góðviðri. Svæðið snýr í suður og er skjólgott vegna legu skólabyggingarinnar. Í framtíðinni vonumst við til að inngangur að D-álmu (miðstigi) verði færður af svæðinu og nýr inngangur verði byggður á suðurhlið. Það er framtíðarsýn okkar og því verður frágangur á því svæði síðastur í röðinni.
Hér má sjá hvernig pallurinn og núverandi mötuneytissvæði skólans myndar eina heild.
Meðfram suðurhlið skólans er gengið varanlega frá göngustígum og fallegum gróðri. Nemendur geta einnig nýtt þetta svæði til að leika sér á en svæðið liggur í stöllum í átt að fótboltavellinum. Hólagrindum er fjölgað verulega auk þess sem gengið er frá svæðum sem til þessa hefur verið hætt við að verða að drullusvaði á vorin og haustin.
Aðkoma að skólanum frá Víkurbraut verður öll miklu betri bæði fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Einnig fjölgar hjólagrindum verulega og gengið er frá svæðinu þannig að það þolir mikla umferð nemenda og starfsmanna. Fallegur og hentugur gróður skapar einnig skemmtilega umgjörð.
Hér má sjá áætlaða mynd af skólanum séð frá Víkurbraut þar sem gengið er inn í B-álmuna (unglingstigið). Gróður og grindverk mynda skjólvegg með skólanum.
Það eru sannanlega spennandi hlutir að gerast og bjart framundan í skólanum.
Eins og sjá má á þessum myndum er mikill metnaður á bakvið þessa framkvæmd og Akraneskaupstaður vandar til verka í samstarfi við skólafólk, hönnuði og verktaka. Vonandi verður allt orðið frágengið í haust þegar nýtt skólaár hefst.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is