Alþjóðadagur læsis á morgun 8. september.

Alþjóðadagur læsis er 8. september. Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis og í ár taka Íslendingar í fjórða skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi.
Læsi hefur verið skilgreint sem:
Lestur – Hlustun – Tal - Ritun
Á degi læsis eru Skagamenn og fólk um allan heim hvatt til þess að skipuleggja læsisviðburði. Það má gera til dæmis með því að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða nota tungumálið á annan hátt til ánægjulegra samskipta.
Nemendur Grundaskóla munu halda upp á daginn á margvíslegan hátt. Dæmi um slíkt er heimsókn 1. bekkinga á Bókasafn Akraness til að kynna sér nýja bók, Nesti og nýir skór sem Ibby á Íslandi gefur út í samvinnu við Mál og menningu. Bókin geymir sögur, myndir og ljóð frá fyrri tímum – sögur sem foreldrar, kennarar, ömmur og afar þekkja og munu njóta þess að kynna fyrir börnum sínum. Allir 1. bekkingar á landinu fá bókina að gjöf og er um að gera að foreldrar og börn njóti þess á næstu dögum að lesa hana saman.
Mikilvægt er að hvetja börn og unglinga til lesturs og kenna þeim að njóta góðra bóka. Besti undirbúningurinn fyrir lestrarnám ungra barna er einmitt að foreldri eða annar fjölskyldumeðlimur lesi reglulega fyrir þau. Þannig eykst málvitund og orðaforði, þjálfun einbeitingar og hlustunar ásamt því að örva sköpunargáfu og hugmyndaflug. Þó að börn séu farin að lesa auðveldan texta á að halda áfram að lesa fyrir þau efni sem hæfir þroska þeirra og vitsmunalegri getu þar til að þau hafa sjálf náð leikni í að lesa texta við hæfi.
Í meðfylgjandi skjali er hægt að sjá hugmyndir að læsisviðburðum í tengslum við alþjóðadag læsis.
http://www.unak.is/static/files/Frettir/frettablad_dagur_laesis_2012.pdf