Brauðsala Grundaskóla

Nemendafélag Grundaskóla starfrækir nú líkt og síðustu ár brauðsölu á unglingastigi. Nemendur í 7.-10. bekk geta verslað í brauðsölunni en útskriftarnemar sjá um afgreiðslu. Boðið er upp á brauðmeti smurt með hollu áleggi. Einnig reyna 10. bekkingar að baka reglulega og reyna þá að bjóða upp á eitthvað nýtt. Á fimmtudögum eru í boði eitthvað sætabrauð en aðra daga er horft til meiri hollustu.
Viðskiptamenn geta greitt með peningum eða keypt s.k. brauðsölukort sem gefur töluverðan afslátt af stykkjaverði. Nemendafélagið keppist við að halda verðlagi stöðugu og hafa engar hækkanir orðið á brauðsölukortinu á milli ára en hvert kort kostar 4000 kr. Á hverju brauðsölukorti eru alls 18 skammtar en ef drykkir eru ekki með getur viðskiptamaður nýtt kortið í allt að 27 skipti. Síðustu ár hafa þessi viðskipti gengið vel og að mati nemenda og foreldra er brauðsalan hagkvæmur og góður kostur.
Nemendaráð Grundaskóla leggur áherslu á að þjónusta og verð sé með því besta sem gerist. Auk nemenda hafa skólaliðar á unglingastigi umsjón með brauðsölunni og tryggja að reksturinn sé í góðum farvegi.
Ef foreldrar eða nemendur hafa einhverjar spurningar um þessa þjónustu þá er velkomið að hafa samband við skrifstofu Grundaskóla í síma 4331400.