„Einn getur verið einmana saman.“

Það þarf enga síma í skólann – best að skilja þá eftir heima

 Eins og flestum foreldrum/nemendum er eflaust kunnugt um þá eru snjallsímar afþakkaðir í Grundaskóla og í reglum okkar sem er einskonar sáttmáli er kveðið á um að slík tæki eigi ekki að vera í notkun nema með leyfi starfsfólks. Stefna skólans er skýr og nýtur bæði skilnings og stuðnings í skólasamfélaginu. Nemendur þurfa einfaldlega ekki á slíkum tækjum að halda í skólastarfinu og rannsóknir sýna að símtækin geta oft truflað námið. Tækin geta m.ö.o. verið meira til ógagns en gagns fyrir nemendur.

 Skipulögð markaðssetning

Tilgangur margra samfélagsmiðla er markaðssetning og að ná til notenda þannig að þeir „ánetjist„ hratt og örugglega. Litir, myndform, hljóð, endurtekningar og tákn eru notuð til að ná athygli okkar. Margvíslegir leikir eru auk þess hannaðir til að ná athygli þó gagnsemin eða lærdómurinn sé afar takmarkaður.

 Til marks um útbreiðsluna má sjá fólk í öllum aðstæðum með síma í hönd og athyglin er öll á tækinu. Notkunin er jafnvel svo mikil að heilbrigðisyfirvöld eru farin að merkja ákveðin líkamleg vandamál og stoðkerfisveikleika tengt líkamsbeitingu ungs fólks. Þá má einnig benda á að tengd síma- og tæknifyrirtæki eru metin þau verðmætustu á fjármálamarkaði. Notendur tækjanna eru jafnvel bókfærðir sem eign í bókhaldi fyrirtækjanna ekki ósvipað og fiskur í sjónum tengt kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja.

 Markaðssetning síma- og tæknifyrirtækja beinist ekki síst að ungu fólki en engar opinberar reglur eru í gildi í tengslum við aldursmörk notenda líkt og gerist með til dæmis útivistartíma þó rannsóknir sýni skýrt að notkun tækjanna geti haft alvarleg áhrif á framheila ungmenna í miðju þroskaferli. Kannski er nú sá tími kominn að foreldrar og forráðamenn verða að vakna af værum blundi og setja börnum sínum eitthvað sem við getum kallað rafrænan útivistartíma.

 Lykill að velgengni er að við stjórnum tækninni en hún ekki okkur

Notkun snjallsíma og annarra snjalltækja er alls ekki áhættulaus og umhverfið ekki eins öruggt og margir halda. Í gangi er m.a. skipulögð upplýsingasöfnun og að fólki er haldið auglýsingaefni sem tæknin telur að höfði til viðkomandi. Svokallaður algóritmi stýrir efni til okkar og skráir rafræn fótspor. Fjöldi fólks er í beinni útsendingu og til er orðin heil starfsstétt eða títtnefndir áhrifavaldar sem hafa tekjur af því að bjóða vörur og þjónustu. Ekki verður séð að í þeirri sölumennsku sé öryggi eða velferð  ungmenna í forgrunni heldur ráða önnur sjónarmið sannanlega ferð.

 Við í Grundaskóla reynum að nýta tæknina í náminu en um leið að huga vel að öryggismálum og uppbyggilegri notkun. Tæknin er mikilvæg og getur gagnast vel. Það er t.d. mikilvægt að skólinn þrói starfs- og kennsluhætti sína og tækni í samræmi við nútímakröfur. Margvíslegar tæknislausnir er framtíðin og við sjáum óþrjótandi möguleika til að nýta hana til jákvæðra hluta en lykill að velgengni er að við stjórnum tækninni en hún ekki okkur.

 Sáttmála um umgengni

Framboð af duldu auglýsingaefni, klámefni, ofbeldisefni og óhróðri er takmarkalaus á netinu. Ein af vörnum okkar til að tryggja heilbrigði barna og ungmenna er að stýra notkuninni með því að gera einhverskonar sáttmála. Að fólk á öllum aldri eigi samtal um hvað er heilbrigð notkun. Nýta tækin til gagns og í ákveðnum tilgangi og ræða um leið þær hættur sem eru til staðar s.s. varðandi siðferði, fíkn o.fl.

 Botnlaus áreitni

Ákveðinn freistnivandi er klárlega til staðar ekki síst fyrir börn og ungmenni. Áreitnin er hreinlega botnlaus því samkvæmt upplýsingum frá ungmennunum okkar eru þau flest að fá á bilinu 100-1000 skilaboð á sólarhring í gegnum símana og tengd tækniforrit og svonefnd öpp. Flest af þessum skilaboðum eru með öllu tilgangslaus en krefjast samt athygli og jafnvel viðbragða í formi margvíslegra tákna. Forritin eru hönnuð til að kalla fram einhvers konar vellíðan eða eftirvæntingu hjá notendum og teikna upp ákveðna glansmynd af raunveruleikanum sem getur leitt til fíknar eins og fjölmörg dæmi sýna og sanna.

 Félagsleg staða og sannir vinir

Stundum kemur upp umræða um að símar og snjalltæki séu nauðsynleg til að halda félagslegri stöðu. Rætt er um að nútímatæknin vinni gegn einmanaleik o.s.frv. Um þetta mætti hafa mörg orð og ekki er allt sem sýnist. Dæmi um það er sagan af ungmenninu sem átti þúsundir „vina“ á hinum ýmsu forritum og öppum. Foreldrar viðkomandi töldu barnið sitt vel statt en kom svo algjörlega á óvart þegar barnið þjáðist af miklum einmanaleika. Þar sannaðist að „einn getur verið einmana saman“ ef samskiptin uppfylla ekki þarfir okkar. Þúsundir „vina“ í samskiptaforriti eru ekki samanburðarhæfir við sanna vini í raunheimum sem bæði deila og þiggja, styðja og hvetja þegar reynir á.

 Við hinir fullorðnu ættum einnig að spyrja okkur tengt þessari umræðu, hvernig þessi ímynd getur staðist því  á sama tíma og börnin okkar eru stöðugt að bregðast við í símtækjunum og eru nánast á vaktinni allan sólarhringinn,  sýna rannsóknir að aldrei fyrr hafa jafnmörg ungmenni metið andlega heilsu sína slaka. Hundruð barna og ungmenna glíma við kvíða, minni einbeitingu, slakari sjálfsmynd og verri félagsfærni.

 Næði og friður til að nema - velferð í forgrunni

Nú er svo komið að fjöldi skólafólks hefur varað við þessari þróun sem er að eiga sér stað og kallað eftir samræmdum viðbrögðum heimila og skóla tengt notkun síma og snjallforrita. Við í Grundaskóla bregðumst við og ætlum að gefa símum og snjallforritum á markaði frí á skólatíma. 

 Við viljum leggja áherslu á að vinna með samskipti og samstarf í raunheimum, efla hæfni barna í að leysa flókin verkefni og beita gagnrýnni hugsun. Við viljum velja á eigin forsendum, náms og kennsluaðferðir sem gagnast best hverju sinni. Heilbrigði og velferð barna og ungmenna er í forgangi í skólanum en ekki markaðsöfl í keppni um neytendur á tæknimarkaði. Börnin okkar þurfa hreinlega næði og frið til að læra.   

 Það er mikilvægt að skólinn og heimilin sameinist um reglur og heilbrigða notkun í samráði við börn og ungmenni tengt notkun og umgengni að þessum tækjum. Það er aldrei mikilvægara en einmitt nú að ná samstarfi og samtakamætti í uppeldi barna. Við hvetjum foreldra og heimilin til að standa saman og fylgja fordæmi okkar. Að standa saman með því að nýta tæknina en að setja skýran ramma um þessi tæki og nýja tækni.

 Höfum símana heima

Hvernig sem allt snýr þá er það skólans að útvega nauðsynleg námstæki og námsgögn. Það er a.m.k. á hreinu að ekki er þörf á að kaupa dýra síma fyrir skólanámið en ef þeir eru þegar til þá er engin þörf á símum í skólanum og best að geyma þá heima.

 

Með kveðju,

Sigurður Arnar Sigurðsson

Skólastjóri