Fræðsla um netöryggi í dag

Í dag var öllum nemendum Grundaskóla boðið á fyrirlestur á sal skólans. Fyrirlesturinn var í boði samtakanna Heimili og skóli og SAFT, og er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi.
Í fyrirlestrinum var m.a. rætt um rafrænt einelti sem er ein af þeim hættum sem steðjar að börnum og ungmennum á netinu í dag. Skilningur á eðli þess og birtingarmyndum hefur aukist og umræða um skaðlega samskipti á netinu hefur verið áberandi í þjóðfélaginu. Upplýsingatækni samtímans gefur fólki óteljandi tækifæri til samskipta en um leið verkfæri sem geta valdið miklum skaða. Einelti er í auknum mæli að færast yfir á netið þar sem samfélagsmiðlar, skyndiskilaboð og spjallsvæði eru notuð til að gera lítið úr öðrum og til eru dæmi um að bloggsíður og prófílar á samskiptamiðlum hafi verið settar upp eingöngu til að niðurlægja ákveðinn einstakling. Einnig þekkist það að fólk noti snjallsíma til þess að áreita, stríða eða hræða aðra með óviðeigandi símtölum, textaskilaboðum eða myndum, hvort sem það stafar gáleysi eða einbeittum brotavilja. Rafrænt einelti getur verið:

  • Munnlegt: uppnefningar, meinyrði, gróusögur, varanleg stríðni;
  • Tilfinningalegt: hafa að háði og spotti, niðurlæging, útilokun frá hópi eða þátttöku;
  • Kynþáttahatur: ögra vegna kynþáttar
  • Kynferðislegt:  ruddalegar, móðgandi athugasemdir.
Bent var á nokkur góð ráð fyrir alla til að hafa í huga þegar verið er að skoða netið, þetta er meðal þeirra:
  • Mikilvægt er að gefa ekki hverjum sem er símanúmerið sitt, síst af öllu ókunnugum.
  • Aldrei svara texta- eða myndskilaboðum sem ekki hefur verið óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
  • Sömu reglur gilda um samskipti í snjallsímum og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
  • Börn eiga ekki að vera skráð fyrir símanúmerum sínum. Númer sem skráð er á kennitölu barns kemur fram í símaskrá, sem auðveldar aðgengi að barninu.
  • Börn yngri en 13 ára mega ekki vera á facebook.
  • Samfélagsmiðlar sem bjóða upp á nafnlaus samskipti eru sérstaklega hættulegir.