Í morgun stóð til að 20 nemendur í Grundaskóla tækju samræmt könnunarpróf í ensku rafrænt. Þessir nemendur voru valdir af Menntamálastofnun í tilviljunarkenndu úrtaki sem tilkynnt var um í lok síðustu viku. Þá þegar sendi Grundaskóli Menntamálastofnun athugasemdir við framkvæmd prófsins en ýmislegt mátti betur fara að okkar mati.
Til að gera langa sögu stutta mistókst framkvæmdin. Ekki tókst að opna prófið eða komast inn á kerfi Menntamálastofnunar sem á endanum hrundi vegna álags. Enskupróf sem hefjast átti kl. 9.00 gat því ekki hafist á réttum tíma og þeir nemendur sem áttu að taka rafræna prófið voru á endanum fluttir til og látnir taka hefðbundið skriflegt próf allnokkru eftir að formlegur próftími hófst. Veruleg röskun varð af þessum sökum en próftíminn verður lengdur til samræmis.
Grundaskóli vill gjarnan taka þátt í að þróa námsmat í samstarfi við aðila utan skólans, svo sem ráðuneyti menntamála og Menntamálastofnun. Við verðum þó að gera kröfu um vandaðri undirbúning en hér var raunin.
Samanburður á niðurstöðum samræmdra könnunarprófa hefur tíðkast lengi. Þau eru vissulega einn mælikvarði á árangur en mæla þó aðeins takmarkaðan hluta þekkingar, leikni og hæfni nemenda. Í Grundaskóla eins og líklega flestum grunnskólum á Íslandi er lögð áhersla á fjölbreytt og einstaklingsmiðað námsmat sem kemur til móts við ólíka nemendur. Við leggjum metnað í námsmat sem endurspeglar bæði kennsluhætti og nemendahópinn.
Á undanförnum vikum hefur verið mikil umræða um einkunnaverðbólgu úr grunnskólum og jafnvel verið nefnd sérstök inntökupróf í framhaldsskóla í því sambandi. Samræmdum könnunarprófum var ekki ætlað að vera aðgöngumiði að framhaldskóla heldur til þess ætluð að veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um stöðu nemenda í samanburði við jafnaldra. Almennt er vandséð hvernig nota má einkunnir samræmdra könnunarprófa til samanburðar á milli skóla en hvað enskuprófið í ár varðar er útilokað að reyna slíkt.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is