List- og verkgreinar blómstra í Grundaskóla
Á hverju ári setur leiklistarsmiðja í unglingadeild upp leikrit sem sýnt er á sal skólans fyrir alla nemendur auk þess sem krökkum af leikskólum bæjarins er boðið á sýningu. Um árabil hafa Einar Viðarsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Eygló Gunnarsdóttir borið veg og vanda af þessum sýningum, Einar og Gunnar við leikstjórn og aðra umsýslu en Eygló við hönnun og framleiðslu á búningum ásamt vöskum hópi nemenda. Að þessu sinni sýndi leikhópurinn Fríðu og Dýrið sem flestir kannast við. Skilaboð leikritsins eru þau að fegurðin kemur að innan og að hugsa ekki bara um sjálfan sig heldur vera góður við aðra, komust vel til skila í meðferð leikhópsins. Það er ótrúlegt hvað alltaf tekst að setja upp flottar sýningar á hverju ári þar sem krakkarnir fara á kostum undir styrkri leiðsögn þeirra félaga. Sviðmynd og búningar hjálpast síðan að við að mynda frábæra heild. Það er óhætt að segja það að Grundaskóli standi sig vel á list- og verkgreinasviðinu því bráðum styttist í að 7. bekkur sýni árlegt jólasveinaleikrit. Það átta sig ekki allir á hvað mörg handtök eru að baki svona leiksýninga en eins og meðfylgjandi myndir sýna hafa kennarar og nemendur staðið í ströngu við að teikna, mála, smíða, sauma og föndra við hitt og þetta auk þess sem leikarar hafa þurft að læra textann og æfa framsögn. Til hamingju leiklistarsmiðja með frábært verk.