Frumsýning framundan í Grundaskóla

Þann 26. janúar nk. munu nemendur í 10. bekk, Grundaskóla á Akranesi, frumsýna söngleikinn Úlfur, úlfur á sal skólans.
Um er að ræða söngleiki eftir þá Einar Viðarsson, Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson sem nú birtist okkur í nýjum búningi.
 
Undanfarin fjögur ár hefur verkefnið verið lokaverkefni í höndum 10. bekkjar og í ár er það árgangur 2008 sem tekur við keflinu.
 
Söngleikurinn Úlfur, úlfur gerist á bókasafni þar sem ævintýrapersónur bókanna lifa og hrærast.
Í söngleiknum hittum við fyrir gamalkunnar ævintýrapersónur sem hafa áhyggjur af tilveru sinni vegna minnkandi lestraráhuga í samfélaginu. Sagan hefur að geyma margar skemmtilegar og litríkar persónur, hraða atburðarás, kraftmikla tónlist og dans, sem allt blandast saman í skemmtilegan hrærigraut, lituðum ævintýrablæ.