Fundað um farsældarlögin

Í gær kom Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra í heimsókn á bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar.

Tilgangur heimsóknarinnar er að fá kynningu á stöðu innleiðingar farsældarlaganna og eiga samtal um innleiðingarferlið á Akranesi.  Akraneskaupstaður og undirstofnanir hans eru forystusveitarfélag á Íslandi á þessu sviði og horfa mörg önnur sveitarfélög til starfshátta hér.

Fulltrúar frá Grundaskóla voru ásamt öðrum á fundinum og kynntu vinnuna sem snýr að stoðþjónustu skólans með nemendum. Markmiðið er að öll skóla og velferðarþjónusta við börn og heimili á Akranesi sé samþætt og samtaka. Nú í haust taka fjórir tengiliðir til starfa í skólanum en þeir halda utan um samfellu í verkefnum og eftirfylgd með einstökum málum innan skóla- og velferðarkerfisins.