Grundaskóli 39 ára í dag

Grundaskóli fagnar í dag 39 ára starfsafmæli en hann tók til starfa þann 6. október 1981.

Í upphafi voru í skólanum 166 nemendur, í sjö bekkjardeildum.

Ári síðar bættist 6 ára deildin við og þannig fjölgaði fljótt í skólanum.

Í dag 6. október 2020 eru 674 nemendur í Grundaskóla og skólabyggingin hefur tekið miklu stakkaskiptum frá upphafsárunum. Stækkað úr rúmum 2000 m2 í um 7000 m2.

Þegar skólinn var settur á stofn haustið 1981 var s.k. C hluti, 2000 m2 bygging tekin í notkun. Sú bygging hýsir í dag yngsta stigið og verknámsálmur. Endanlegum frágangi þeirrar byggingu lauk á næstu fjórum árum og fór kennsla fram samhliða byggingarframkvæmdum. Haustið 1987 var síðan tekin í notkun ný 800 m2 bygging (s.k. B-álma). Næst bættist við (A-álma) 1200 m2 stjórnunarálma, salur og bókasafn tekið í notkun 1996. Árið 2002 var skólinn einsetinn þegar miðstigsálmann var byggð. Nýjustu viðbyggingar skólans eru í s.k. Eyju en það eru lausar kennslustofur á skólalóðinni.

Stækkun skólans er ekki lokið og á næsta ári er fyrirhugað að Grundaskóli taki yfir byggingar Garðasels er leikskólinn færist í nýbyggingu. Skólalóð Grundaskóla mun þá sameinast skólalóð Gaðarsels og mynda eina heild. Þangað  mun 1. bekkur og frístund skólans færast. Einnig hafa bæjaryfirvöld áform uppi um að hefja endurbætur og uppbyggingu á íþróttamannvirkjum að Jaðarsbökkum en íþróttamiðstöðin hefur frá upphafi verið kennsluaðstaða fyrir Grundaskóla.

Engin formleg afmælishátíð er í dag en við fögnum þó öll afmæli Grundaskóla eins og vera ber.

Við óskum öllu Grundaskólafólki til hamingju með daginn.

Grundaskóli vex og dafnar og í skólanum starfar öflug starfsheild sem hefur mikinn metnað fyrir skólasamfélaginu á Akranesi