Hugleiðingar um heimanám - tiltrú og sanngirni skiptir sköpum

Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri skrifar

Heimanám er stór þáttur í námi allra barna. Nánast á hverjum degi reyna nemendur og foreldrar að mæta kröfum um heimanám. Almennt virðast kennarar og foreldrar vera sammála um mikilvægi þessa verkefnis og að slík vinna hafi mikið gildi fyrir námsárangur. Sú tiltrú byggir ekki á menntarannsóknum eða tilteknum sannindum heldur nær eingöngu til  tilfinningar um að þetta skipti máli.

Hér í þessum stutta pistli skal ekki gert lítið úr þeirri tilfinningu en jafnframt bent á þá staðreynd að lítil umræða hefur farið fram um heimanám barna og sjaldnast eru færð fram rök fyrir því hvers vegna það er jafn stór þáttur af náminu og raun ber vitni.

Í íslenskum lögum og reglugerðum um skólamál finnst lítið um heimanám. Hvergi er kveðið á um að það sé hluti af starfi grunnskólans né er þar að finna skilgreiningar á heimanámi eða skýringar á því í hverju það felst. Í daglegri umræðu er heimanám bara heimanám og ekki orð um það meir. Svona var þetta þegar foreldrarnir voru í skóla og svona hefur þetta alltaf verið. 

Skólastjórnendur Grundaskóla hafa um nokkurn tíma rætt um tilgang og markmið heimanámsins. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að árangur af slíkri vinnu sé ekki sjálfgefin og mikilvægt sé að slík fyrirlögn  mismuni ekki nemendum. Árangur af heimanámi tekur skiljanlega mið af mörgum utanaðkomandi breytum. Má þar nefna aldur nemandans, um hvaða námsgrein er verið að ræða, heimilisaðstæðum, framsetningu o.s.frv. Fjölmargar rannsóknir sýna að jákvæð áhrif heimanáms á námsárangur er umdeild fyrir utan lestrarnámið. Lestur er því lykill að góðum námsárangri og tilvalið samstarfsverkefni heimilis og skóla. 

Í samræmi við þetta er mikilvægt að heimanám sé sem fjölbreyttast og taki mið af hæfileikum og getu hvers og eins. Staðlað heimanám sem byggir á forsendum kennslubókarinnar mun örugglega ekki henta öllum nemendum. Staðreyndin er sú að hluti heimila eru ekki í stakk búin til að aðstoða við heimanám til dæmis vegna tungumáls, menntunar, atvinnu eða heilsu. Í slíku skipulagi er nemendum og fjölskyldum mismunað og í raun er þá „vitlaust gefið.“ Allt nám verður að byggjast upp af samráði og samstarfi. Við sem sinnum kennslu verðum að taka tillit til mismunandi aðstæðna og fyrirlögn heimanáms að byggja á sanngirni.

Í íslenskum skólum er hefðin sú að kennarar ákveða nánast einhliða hvort heimanám sé lagt fyrir og í hve miklu mæli. Sjaldnast er haft samráð við foreldra eða nemendur. Í ljósi þessa er fróðlegt að spyrja á hvaða faglegu forsendum byggja kennarar og skólar fyrirlögn á heimavinnu nemenda og hvert er markmið slíkrar vinnu? Getur verið að heimanám sé þess eðlis að það krefjist tiltekins viðhorfs og hæfni sem aðeins fæst með langskóla­námi? Er heimanám byggt þannig upp að það geri ráð fyrir aðkomu foreldra eða eru nemendur að klára verkefni sem þeir hafa lært í skólanum?

Á síðustu árum hefur starfstími skóla lengst töluvert. Þrátt fyrir þessa lengingu eru fáar vísbendingar um að heimanám hafi minnkað heldur þvert á móti bendir ýmislegt til þess að aukin áhersla hafi færst á heimanámið. Við sem störfum í skólum verðum að skoða í hvað erum við að verja kennslutímanum og hvernig nýtum við þann tíma sem best. Leggjum með öðrum orðum meiri áherslu á dagvinnu en drögum úr yfirvinnu ef svo má að orði komast.

Hvað þýðir eiginlega að vinna fullan vinnudag? Þá er mikilvægt að muna að börn eigi rétt á frítíma og það er ekki sjálfgefið að ráðstafa samveru foreldra og barna. Á sama tíma er mikilvægt að foreldrar fríi sig ekki ábyrgð á námi og uppeldi barna sinna. Fjölmörg dæmi sýna að gott samstarf milli heimilis og skóla er lykill að árangri. Við erum öll samherjar í mikilvægu verkefni að koma barni til manns.

Vonandi skilja menn ekki þessar hugleiðingar mínar sem svo að allt heimanám sé slæmt. Heimanám á rétt á sér en framsetning þess og skipulag skiptir öllu máli. Það verður hins vegar að taka tillit til lengdar skóladagsins, tómstundaiðkunar og atvinnu foreldra auk ýmissa starfa sem þeir verði að inna af hendi á heimilinu önnur en að aðstoða við heimanám.

Það að rækta og hugsa um líkama og sál skiptir til að mynda einnig miklu. Við skulum ekki vanmeta gildi tónlistariðkunar, íþróttaiðkunar eða samveru með fjölskyldu og vinum. Slíkt er hverjum einstaklingi mikilvægara en margt af því sem í dag kallast hefðbundið bóklegt heimanám.

Við í Grundaskóla vinnum nú að með hugmyndir um heimanám í nýju ljósi í samstarfi við nemendur og foreldra. Í þeirri endurskoðun er sanngirni og tiltrú lykilhugtök. Við verðum að hafa áhuga á nemendum og trúa á að þeir hafi hæfileika sem er ómetanlegur.  Slíkur áhugi getur ekki gert annað en að efla þá skjólstæðinga sem við vinnum fyrir. Niðurstöður fjöldi rannsókna sýna einnig að samvera foreldra og barna skiptir miklu máli. Munum að gæðastund fjölskyldu er hverjum einstaklingi ómetanleg.