Hver er þessi Vilborg iðjuþjálfi?

Í Grundaskóla starfa um eitt hundrað starfsmenn í misstórum stöðugildum. Þegar rætt er um starfsfólk skólans þá er ekki bara vísað til kennara og skólastjórnenda heldur einnig ýmissa annarra starfsstétta s.s. skólaliða, stuðningsfulltrúa, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa o.s.frv. Í skólanum starfar sem sagt fjöldi sérmenntaðra starfsmanna sem allir hafa það markmið að veita nemendum og fjölskyldum þeirra sem besta þjónustu.
Til að upplýsa skólasamfélagið langar okkur til að kynna nýjan starfsmann en það er Vilborg Lárusdóttir, iðjuþjálfi. Hún er Akurnesingur í húð og hár, gekk í Brekkubæjarskóla á sínum tíma og útskrifaðist úr iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri nú í vor. Hún hefur verið yfirmaður hjá Dominos og keppt í pissubakstri hér heima og á erlendri grundu. Hún er ung og efnilegur fagmaður sem er að stíga sín fyrstu spor á vettvangi.
Við tókum Vilborgu tali og lögðum fyrir hana nokkrar spurningar.
Hvernig er að vera komin til starfa sem iðjuþjálfi í Grundaskóla?
Það er mjög gott að koma hér inn. Hér er mikið fjölmenni og mér hefur verið vel tekið. Grundaskóli er spennandi vinnustaður fyrir alla og hér ríkir góður starfandi.
Iðjuþjálfi, hvað gerir hann í Grundaskóla?
„Iðjuþjálfar hafa sérþekkingu á daglegri iðju mannsins. Dagleg iðja okkar er í raun það sem við tökum okkur fyrir hendur til þess að sjá um okkur sjálf, sú vinna sem við stundum og þau áhugamál sem við sinnum. Það að klæða sig, elda, skrifa ritgerð, spila fótbolta eða spila á spil er allt dæmi um iðju.“
Mörgum kann að þykja þessi viðfangsefni ósköp einföld?
„Já, það er rétt en fyrir suma virðast þessi verkefni óyfirstíganleg. Í Grundaskóla eru nemendur sem hafa ekki sömu hreyfifærni og flestir og það er hlutverk iðjuþjálfa að aðstoða þá.“
Hvernig fer sú aðstoð fram?
„Ég reyni að meta getu og færni fólks við þátttöku í iðju og út frá því finna þær leiðir sem þarf til að efla og þjálfa einstaklinginn í þeirri virkni sem hann þarf.“
Þjálfun, er þá átt við einskonar líkamsæfingar eða hvað?
„Já, góð spurning. Flestum dettur hreyfing í hug þegar rætt er um þjálfun en það getur verið annað og meira. Þjálfun getur snúið að eiginleikum t.d. eins og hreyfingu, en einnig að skynjun, hugarstarfi, tilfinningalífi og félagslegum samskiptum. Með skipulagðri þjálfun þessara eiginleika eykst færni einstaklingsins í daglegri iðju.“
Er algengt að iðjuþjálfar sé í skólum. Starfa þeir ekki frekar á heilsugæslustöðvum?
„Jú, það er algengt en iðjuþjálfum fjölgar stöðugt í leik- og grunnskólum því það er mikilvægt að grípa sem fyrst inní og veita faglega aðstoð. Í skólakerfinu er hlutverk iðjuþjálfa gjarnan að styðja við þátttöku barna í námi og félagslegum aðstæðum. Með aðlögun á umhverfi barnsins er hægt að styðja við þátttöku þess í því umhverfi sem það er að öllu jöfnu vant að vera í.
Hverjir leita eftir aðstoð iðjuþjálfa?
„Umsjónarkennarar og aðrir er koma að þjónustu við nemendur geta kallað eftir aðstoð eða ráðgjöf frá mér. Stundum hafa foreldrar samband við skólann o.s.frv. Starf iðjuþjálfa er hlekkur í stoðkeðju Grundaskóla og markmið okkar allra er að bjóða upp á frábæra þjónustu fyrir nemendur skólans.“
Geturðu nefnt dæmi að hverju þjónusta þín getur snúið?
„Þjónusta mín getur tengst öllu mögulegu. Ef ég á að nefna dæmi þá getur þetta snúið að:

  • Eigin umsjá - klæðnaður, snyrting, borðhald
  • Fínhreyfifærni - grip, handbeiting, vinnulag
  • Félagsfærni - þátttaka, samskipti, sjálfsmynd
  • Tómstundaiðja - virk þátttaka, áhugi, ánægja
  • Skynjun - upplifun, viðbrögð, aðstæður
  • Aðlögun umhverfis - skipulag, vinnuumhverfi, líkamsstaða
  • Tölvuvinna - tjáskipti, forrit, sérbúnaður
  • Hjálpartæki - aðlögun og þjálfun
Að allt öðru. Við vitum að þú ert einn öflugasti pissubakari landsins. Er ekki tilvalið að þú takir vakt í mötuneytinu einn daginn og kennir starfsfólkinu þar réttu tökin á pissubakstri?
„Ekki vandamálið vinur. Hvað ætli að þurfi annars að baka margar pissur í 700 manns, segir Vilborg og brosir sínu blíðasta.
Hvað tekur annars langan tíma að gera "Dominos Deluxe" pissu?
Það er misjafnt eftir hvort bakarinn er vanur eða ekki. Segjum frá 10 mín og niður í hálfa mínútu. Fyrir þá sem vilja kynna sér snilli okkar manneskju þá skellum við inn myndbroti hér fyrir neðan sem sýnir og sannar að Vilborg er  54,7 sek. að gera bökuna klára í ofninn. Geri aðrir betur.  (sjá nánar:  http://www.dv.is/frettir/2015/6/7/fljotasti-pizzagerdarmadur-heims-fulltruar-islands-komnir-til-hollands/)
Við þökkum Vilborgu fyrir gott spjall og bjóðum hana velkomna í Grundaskóla. Ef einhvern langar einnig að vita meira um starf iðjuþjálfa þá vísum við á heimasíðu Iðjuþjálfafélags Íslands, (www.ii.is)