Ljósin hans Gutta er samfélagsverkefni sem Hollvinir Grundaskóla, skólafólk á Akranesi og fleiri aðilar standa að í minningu um Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra Grundaskóla, bæjarfulltrúa, alþingismann og ráðherra.
Guðbjartur Hannesson eða Gutti eins og hann var ávallt kallaður fæddist á Akranesi 3. júní 1950 en lést 23. október 2015.
Ljósin hans Gutta vísa til ljósa sem munu lifa í Garðalundi á aðventunni. Ljósunum er ætlað að gleðja bæjarbúa en í störfum sínum lagði Gutti mikla áherslu á að menn hefðu bjartsýni og framfarir að leiðarljósi í öllum verkum. Sem skólastjóri studdi hann dyggilega við verk- og listgreinastarf og munu ljósin hans Gutta lýsa okkur áfram veginn á því sviði.
Ljósin hans Gutta vísa einnig til skólaverkefnis þar sem grunnskólarnir á Akranesi og tónlistaskólinn munu í sameiningu standa að leiklistarverkefni í Garðalundi þar sem ungt og hæfileikaríkt fólk mun leika og spila á hljóðfæri fyrir bæjarbúa. Markmiðið er að gera árlegan listgjörning þar sem fjölskyldur koma og skemmta sér saman í Garðalundi. Leitin að jólasveininum árið 2016 er fyrsta skrefið í verkefni sem mun vonandi vaxa á næstu árum.
Ljósin hans Gutta er verkefni sem er ætlað að auka samstarf skólastofnana á Akranesi, verkefni sem er ætlað að auka samkennd og gleði í samfélaginu á Akranesi, verkefni sem er ætlað að hafa börn og barnamenningu í forgrunni.
Síðast en ekki síst er verkefninu ætlað að halda minningu Guðbjarts Hannessonar á lofti og störfum hans og sýn fyrir æsku Akraness og bæjarfélag.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is