"Ljósin hans Gutta" kveikt í annað sinn í Garðalundi föstudaginn 15. desember kl. 20:00

Ljósin hans Gutta er samfélagsverkefni sem Hollvinir Grundaskóla, skólafólk á Akranesi og fleiri aðilar standa að í minningu um Guðbjart Hannesson, fyrrverandi skólastjóra Grundaskóla, bæjarfulltrúa, alþingismann og ráðherra. Guðbjartur Hannesson eða Gutti eins og hann var ávallt kallaður fæddist á Akranesi 3. júní 1950 en lést 23. október 2015.


Ljósin hans Gutta vísa til ljósa sem munu lifa í Garðalundi á aðventunni. Ljósunum er ætlað að gleðja bæjarbúa en í störfum sínum lagði Gutti mikla áherslu á að menn hefðu bjartsýni og framfarir að leiðarljósi í öllum verkum. Sem skólastjóri studdi hann dyggilega við verk- og listgreinastarf og munu ljósin hans Gutta lýsa okkur áfram veginn á því sviði.
Markmiðið er að gera árlegan listgjörning þar sem fjölskyldur koma og skemmta sér saman í Garðalundi. Leitin að jólasveininum árið 2016 var fyrsta skrefið. Við endurtökum nú leikinn föstudaginn 15. des. kl. 20:00. Skólakór Grundaskóla mun syngja, 10. bekkingar skólans standa að leiklistargjörningi og skapa ævintýrablæ o.m.fl.
Ljósin hans Gutta er verkefni sem er ætlað að auka samstarf, verkefni sem er ætlað að auka samkennd og gleði í samfélaginu á Akranesi, verkefni sem er ætlað að hafa börn og barnamenningu í forgrunni. Síðast en ekki síst er verkefninu ætlað að halda minningu Guðbjarts Hannessonar á lofti og störfum hans og sýn fyrir æsku Akraness og bæjarfélag.