30.10.2015
Deyr fé, deyja frændur
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum)
Að morgni föstudagsins 23. október barst okkur fréttin um andlát Guðbjarts Hannessonar, alþingismanns og fyrrverandi ráðherra en í okkar huga fyrst og síðast fyrrum skólastjóra Grundaskóla.
Við áttum langt og farsælt samstarf við Gutta eins og hann var alltaf kallaður, en hann var líka náinn vinur okkar. Á þann vinskap féll aldrei skuggi þótt við værum ekki alltaf sammála. Hann þoldi vel og hafði jafnan gaman af samræðum um menn og málefni. Hann var alltaf málefnalegur og hélt okkur við efnið ef út af því var brugðið.
Gutti var fyrsti skólastjóri Grundaskóla og hugmyndasmiður á bak við þá skólastefnu sem lögð var til grundvallar og er enn til staðar. Hugmyndir hans hafa einfaldlega staðist tímans tönn. Í hans huga skiptu börnin mestu máli, velferð þeirra og að þeim liði vel í skólanum. Hann þekkti alla nemendur með nafni og lét sig varða líðan þeirra og fjölskyldna. Hlutverk skólans og starfsmanna hans var að styðja við börnin og hafa trú á þeim. Allir gætu eitthvað og enginn gæti allt, en allir ættu að gera sitt besta, hver á sínum eigin forsendum.
Það var einlæg skoðun Gutta að skólinn ætti að vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu og frá upphafi var lögð áhersla á samstarf við alla þá sem áttu aðild að skólasamfélaginu. Hann vildi að allir fyndu sig velkomna í skólann sem væri opinn þeim sem vildu nýta hann.
Gutti var bæði mikill leiðtogi og góður stjórnandi. Hvorutveggja var honum eðlislægt þótt líklega hafi honum oftast þótt vænna um og mikilvægara að vera leiðtogi í öflugum hópi. Liðsheildin skipti hann máli. Hann réði gjarnan að skólanum fólk sem hafði frumkvæði og var tilbúið að leggja sitt af mörkum til að gera góðan skóla betri. Hann gerði miklar kröfur til starfsmanna en mestar til sjálfs sín.
Þeir sem til þekkja vita að Gutti var þungavigtarmaður í skólastarfi á Akranesi en kennsluferill hans hér hófst í Brekkubæjarskóla. – Síðar lagði hann grunn að frábæru starfi Grundaskóla sem hlaut árið 2005 fyrstur skóla Íslensku menntaverðlaunin fyrir frábært skólastarf. Það var mikil viðurkenning fyrir Grundaskóla og Akurnesinga alla en heiðurinn var ekki síst Gutta.
Þótt hann væri í eðli sínu einlægur jafnaðarmaður var Gutti einnig mikill keppnismaður og vildi hag bæjarfélagsins, ÍA og Akurnesinga almennt sem mestan. Hann var alltaf sanngjarn og fór ævinlega að leikreglum. Orð sr. Friðriks Friðrikssonar að láta kappið ekki bera fegurðina ofurliði áttu vel við um starfshætti Gutta og hugsun.
Fyrrverandi nemendur Grundaskóla hafa sagt að maður útskrifist úr skólanum en yfirgefi hann ekki. Það átti við um Gutta. Þótt hann léti af störfum sem skólastjóri kom hann reglulega og hitti sitt fólk, sótti alla viðburði sem skólinn stóð fyrir og var raunverulegur þátttakandi í skólastarfinu alla tíð. Síðast kom hann í heimsókn í september síðastliðnum þá orðinn veikur. Hann brosti þó enn sínu hlýja brosi, fékk sér kaffi og konfekt og spjallaði.
Í dag lúta nemendur og starfsmenn Grundaskóla höfði í virðingu og þökk fyrir áratuga samveru, samstarf og vináttu. Gutti gleymist engum sem kynntust honum. Það er okkar hlutverk að halda nafni hans og starfi á lofti með því að vinna stöðugt að því að gera góðan skóla betri.
Fyrir hönd nemenda og starfsmanna Grundaskóla sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur til Sigrúnar, Birnu, Hönnu Maríu og fjölskyldunnar allrar. Megi minning um góðan dreng lifa.
Hrönn Ríkharðsdóttir, Sigurður Arnar Sigurðsson.