Nemendur í 9. og 10. bekk fá fartölvur til afnota í náminu

Á næstu dögum munu öll börn í  9. og 10. bekk Grundaskóla eiga kost á að fá fartölvur til afnota í náminu og eru  tölvurnar eingöngu hugsaðar sem námstæki.

Tölvurnar eru einkatölvur í þeirri merkingu að þær færast ekki á milli nemenda á lánstímanum og verða alla jafnan geymdar í skólanum en möguleiki er á að taka þær heim ef sinna þarf námsverkefnum. Tölvurnar eru í eigu skólans og nemendur fá þær afhentar að uppfylltum ákveðnum ábyrgðarskilmálum og með formlegu samþykki foreldra eða forráðamanna.

Grunnskólarnir á Akranesi eru samstíga í þessari innleiðingu þó örlítill áherslumunur kunni að vera á milli skóla s.s. varðandi útfærslu. Það eru kennarar í umræddum árgöngum sem stýra innleiðingu og vinnu með þessi námstæki.

Þessar nýju tölvur munu bæta tækjakost okkar verulega og auka möguleika nemenda til þess að nota stafræna tækni í náminu. Ekki er skilyrði að nýta þessar tölvur heldur geta nemendur áfram notað almennar vélar skólans eða sínar einkavélar. Mikilvægt er að foreldrar taki ákvörðun með sínu barni hvort það ætli að nýta sér þetta tilboð og undirgangast þá ábyrgðarskilmála sem eru settir varðandi umgengni og notkun.

Akraneskaupstaður hefur útbúið notkunarskilmála varðandi námstækin en samþykki þeirra er forsenda þess að nemendur geti fengið sitt sértæki afhent. Lánsreglur og skilmálar verða til kynningar fyrir nemendur og forráðamenn á næstu dögum.

Í nánustu framtíð er stefnt á að allir nemendur í 8.-10.bekk eigi kost að fá fartölvu að láni. Bæði nemendur og kennarar hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni í fjölbreyttu, framsæknu og skapandi skólastarfi.

Grundaskóli er OKKAR