Akraneskaupstaður vinnur nú hörðum höndum í samstarfi við verktaka að klára gangbrautir og göngustíga milli skólans og Íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum. Umferðarljósin eru farin en í stað þeirra eru fjórar gangbrautir sem unnið er að færa upp á palla til að auka umferðaröryggið.
Í dag er 30 km hámarkshraði á svæðinu en ekki er útilokað að hann verði færður niður í 15 km hámarkshraða í framtíðinni með vísan í ákvæði um vistgötur. Innnesvegurinn þverar skólalóðina og nemendur fara í hópum alla virka daga milli íþróttamannvirkja og Grundaskóla.
Verktakar vinna nú einnig að gerð útskota fyrir strætó og svokallaðra að- og fráreina fyrir bifreiðar.
Við hvetjum alla vegfarendur til að fara varlega og ökumenn til að sýna gangandi umferð sérstaka tillitssemi.