Nýr og glæsilegur Grundaskóli í uppbyggingu

Eins og áður hefur komið fram hefur bæjarstjórn Akraneskaupstaðar ákveðið að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á skólahúsnæði Grundaskóla. Þessar endurbætur tengjast m.a. lausum kennslustofum á skólalóð skólans, endurbyggingu á C- byggingu sem hýsir yngsta stig skólans ásamt verk- og listgreinum, að Grundaskóli taki við húsnæði Garðasels og endurbætur og endurhönnun á B-álmu unglingastigs og stjórnunarálmu. Að lokum er það uppbygging íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum sem mun gjörbreyta aðstöðu skólans til kennslu skólaíþrótta.

Í stuttu máli má segja að nú sé unnið að byggingu á nýjum skóla því framkvæmdir eru svo umfangsmiklar og tengjast mörgum atriðum.

Til að skólasamfélagið fái betri yfirsýn ætlum við að kynna helstu þætti.

C- álman yngsta stig/verk og listgreinar

Hér má sjá mynd að nýjum og betri Grundaskóla. Byggt er yfir anddyri og innganga þannig að aðgangur er allur betri. Lyftur settar í skólahúsnæðið og þriðja hæðin byggð upp. Skólinn stækkar töluvert og aðstaða bæði nemenda og starfsmanna verður miklu betri. Nýtt loftræstikerfi kemur í bygginguna sem tryggir miklu betri loftgæði á öllu hæðum byggingarinnar. Vonast er til að byggingarframkvæmdum sé lokið í árslok 2024.

Inngangar/anddyri

Yngstu bekkirnir fá aðskilda innganga þar sem betra pláss er fyrir útifatnað, blautsvæði, inn- og útgöngu. Mest er breytingin fyrir yngstu nemendurna því útistiginn verður nú inni í skólabyggingunni.

Ný C bygging yngsta stigs.

Allt er miklu bjartara, hærra til lofts og í raun er yngsta stigið allt önnur bygging en var. Kennslustofum fjölgar og skólinn er hannaður með nútíma kennsluhætti í huga. Unnið er með hljóðgæði, birtu, rými og loftgæði. Sjón er sögu ríkari.

Ný og betri kennsluaðstaða fyrir verk- og listgreinar.

Verk- og listgreinálman verður nánast óþekkjanleg. Hrein bylting verður í aðstöðu og aðbúnaði.

Gömlu stjórnunarálmunni breytt í kennslurými

Stjórnunarálmu skólans er breytt í kennslusvæði. Skrifstofa skólans fær betri vinnuaðstæður og þjónusta hennar er aukin við nemendur, foreldra og allt skólasamfélagið. Verulegar breytingar eru gerðar þannig að opnuð eru fundarherbergi fyrir nemendur, starfsmenn og foreldra. Ný tækni er tekin í notkun varðandi skráningu, fjarfundi o.fl. Opið vinnurými og tækniþjónusta kemur á miðsvæði og þrjár nýjar kennslustofur.

Unglingastigið endurbætt

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á unglingastigi. Innréttingum hefur verið breytt, gluggar settir til að birta upp miðrými, ný lýsing o.m.fl. Allt eru þetta breytingar sem eru virkilega vel heppnaðar. Hönnun er nú samræmd þeim sem eru í undirbúningi í nýbyggingu.

Ný íþróttamannvirki á Jaðarsbökkum

Skólaíþróttir hafa lengi þurft að kenna í óhentugu húsi og búningsklefar eru fyrir löngu hættir að rýma allan nemendafjölda skólans. Nú er hafin uppbygging á glæsilegu íþróttamannvirkjum á Jaðarsbökkum sem mun gjör breyta aðstöðu nemenda í skólaíþróttum.

Bjartari tíð framundan með blóm í haga.

Síðustu ár hafa verið okkur flókin í húsnæðismálum og næstu tvö verða það einnig. Allir gera sér grein fyrir vandanum og álaginu sem fylgir. Hins vegar hyllir undir betri tíð og á næstu misserum mun aðstaða Grundaskóla batna jafnt og þétt.

Bæjaryfirvöld og skólasamfélagið allt vinna kappsamlega að undirbúningi og hönnun nýrra skólamannvirkja. Á næstu vikum mun margt gerast á þessum vettvangi. Rýming á verk- og listgreinaálmu er hafin og verklegar framkvæmdir að hefjast. Útboð framkvæmda er komið í ferli og verktakar farnir að kynna sér aðstæður.

Lausar kennslustofur í Eyju verða vígðar núna í lok mánaðarins og húsnæði Garðasels verður hluti af Grundaskóla í lok þess árs. Í vor og sumar verða umfangsmiklar framkvæmdir í skólanum og vonumst við til að fá endurbætt kennslusvæði í gömlu stjórnunarálmunni á haustmánuðum 2022.

Í lok árs 2024 er stefnt á að endurbættur Grundaskóli verði kominn í fulla notkun.

Skólinn okkar verður þá einn sá glæsilegasti í landinu.