Ráð fyrir góða skólabyrjun

Nú eru fyrstu dagar skólaársins að líta dagsins ljós. Mörg börn finna fyrir tilhlökkun og spenningi yfir að hitta aftur bekkjarfélaga sína og kennara og eru tilbúin að takast á við nýjar áskoranir. Önnur börn finna fyrir kvíða yfir sömu atriðum og er það mjög eðlilegt.

Hér eru nokkur ráð sem gott er að fylgja til að minnka álag og ýta undir góða líðan 

Svefn 
Börn þurfa 9-10 tíma svefn á hverri nóttu því þurfa þau að fara snemma í háttinn. Ef barnið á erfitt með að sofna gæti hentað því að hlusta á hugleiðslusögu Hugarfrelsis fyrir svefninn.

Næring   
Morgunmaturinn er mikilvægasta máltíð dagsins því skaltu leggja áherslu á að barnið borði næringaríkan morgunverð áður en það fer í skólann.

Rútína 
Til að morgunstundin sé róleg og afslöppuð er gott að venja sig á að taka til skóladótið að kvöldi, finna til fötin og ákveða nesti. Róleg morgunstund minnkar álag og kvíða og ýtir undir að barnið sé í jafnvægi þegar það mætir í skólann. Mörgum reynist vel að hafa sjónrænan lista til að fylgja og merkja við svo ekkert gleymist heima.

Jákvæðni 
Talaðu vel um námið, skólann og starfsfólk skólans. Ræddu við barnið um tilfinningar sínar varðandi skólabyrjunina. Ef barnið finnur fyrir áhyggjum skaltu ræða um áhyggjur þess og hjálpa því að finna lausnir á vandanum. Einnig er gott að kenna barninu að anda djúpt nokkrum sinnum til að minnka kvíðahnútinn í maganum. Ef barnið hefur tilhneigingu til að vera neikvætt þarftu að hjálpa því að velja frekar jákvæðar hugsanir og kenna því að hugsa og tala fallega til sín.

Styrkleikar   
Börn þurfa tíma fyrir leik og hreyfingu á hverjum degi. Skjánotkun ætti því að vera í lágmarki og alls ekki á kostnað hreyfingar, leiks og lærdóms. Gott mótvægi við snjalltækjanotkun er að hvetja barnið til að nota einn af styrkleikum sínum í 30 mínútur (t.d. að teikna, halda bolta á lofti, leika á hljóðfæri eða lesa) á móti 30 mínútum í snjalltækinu.