Nýlega kynntu menntamálayfirvöld ákvörðun um fyrirhugaðar breytingar á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Liður í þessum undirbúningi var meðal annars rafrænt æfingapróf fyrir 3. bekk sem framkvæmt var s.l. fimmtudag 26. maí.
Það má hafa mörg orð um þessi mál og þau skref sem hafa verið tekin. Margt virkar jákvætt við fyrstu sýn en mörgum spurningum er ósvarað, bæði um hugmyndafræðina að baki breytinganna og framkvæmd prófanna sjálfra. Rafræn fyrirlögn könnunarprófa getur verið framfaraskref á margan hátt. Slíkt fyrirkomulag getur auðveldað þróun prófa bæði hvað varðar inntak og form, fjölbreytni prófatriða og ný tækni getur í framtíðinni mætt ýmsum einstaklingsþörfum betur en nú er gert. Við getum einnig lært margt af öðrum þjóðum og nýtt okkur í þessu ferli þannig að próftakan verði til sem mests gagns. Þetta er verkefni sem er áhugavert fyrir menntamálayfirvöld, kennara og skólastjórnendur að þróa í góðri samvinnu á næstu árum. Mikilvægt er að við nýtum kosti rafræns umhverfis umfram prófa á pappír og hvernig prófin munu taka mið af hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Hér er þó nauðsynlegt að flýta sér hægt, gefa sér góðan tíma og vanda til verka.
Ég tel að menntamálayfirvöld séu nú að fara framúr sér og flestum öðrum í þessu máli. Það að ætla að skella inn rafrænum samræmdum könnunarprófum skólaárið 2016-2017 er ekki skynsamlegt að óbreyttu. Fjölmörg ljón eru í veginum sem yfirvöld menntamála verða að taka tillit til. Krafa yfirvalda um samræmda prófatöku hvað varðar tíma, staðsetningu og framkvæmd er vandamál. Sú krafa er illskiljanleg í ljósi þess að könnunarprófin eru í heild sinni slakur mælikvarði á skólastarf almennt.
Þá þarf að huga vel að framkvæmd prófanna þar sem skólarnir búa til dæmis við afar mismunandi aðstæður svo sem varðandi fjölda tölva, nettengingu og netsamband. Fjölmennir skólar geta t.a.m. alls ekki skapað samræmdar prófaðstæður á tilteknum prófdegi þar sem kannski 80-100 börn eiga að þreyta próf á sama tíma. Auk þeirra vandkvæða sem hér á undan eru nefnd á eftir að ræða ýmis önnur atriði við framkvæmdina. Til dæmis er ljóst að sveitarfélög verða að leggja í mikinn kostnað til að þetta form prófatöku sé raunhæfur valkostur. Kaupa þarf inn tæki og tól sem ekki rúmast nú innan fjárheimilda skóla.
Samræmd könnunarpróf eiga í grunninn fyrst og fremst að vera fyrir nemendur og foreldra. Prófin eiga að sýna aðilum hvar þeir standa miðað við sett markmið aðalnámskrár. Samræmd könnunarpróf eru sjaldnast fyrir skóla því kennarar vita oftast nákvæmlega hver staðan er á hverjum nemanda. Flest vandkvæði við framkvæmd rafrænna könnunarprófa snúa að skorti á tækjum, að tímasetningu, skipulagi og formi prófanna. Flest þessara vandamála má hins vegar leysa með einföldum hætti.
Til dæmis er hugmynd að lausn að prófin séu opin á vef í ákveðinn tíma eða foreldrar geta fengið send lykilorð heim þar sem þeir geta sest með börnum sínum yfir prófið þegar aðstæður gefast til. Fjölmargar menntarannsóknir hafa sýnt að virk þátttaka og hvatning foreldra í námi barna sinna skiptir sköpum. Nemendur eiga að fá allan stuðning til að ná sem bestum árangri án þess að til staðar séu hindranir formlegar eða óformlegar eða dregið sé úr kröfum. Eins og allir eiga að vita er lykill að velgengni að próftakinn sé tilbúinn í próftökuna. Með því að taka rafræn könnunarpróf á heimavelli aukast einnig líkur á að prófin verði börnunum og foreldrum þeirra til einhvers gagns og gamans.
Rafræn könnunarpróf eiga ekki að vera einkamál Menntamálastofnunar heldur unnin í virku samráðsferli við kennara, skóla, sveitarfélög og foreldra. Nokkuð skortir enn á í þeim efnum, því miður. Enn er tími til að forða annars góðri hugmynd um rafræn könnunarpróf frá glötun. Tökum upp virkt samstarf hagsmunaaðila um námsmat sem miðast við fjölbreytt skólastarf frekar en samræmt. Námsmat sem miðast við hinar ýmsu námsgreinar og þá jafnt bóknám sem verknám. Vinnum saman að því að skapa réttlátara menntakerfi þar sem sanngirni er leiðarljós okkar og allir nemendur eru fullgildir þátttakendur óháð hæfileikum sínum eða aðstæðum.
Sigurður Arnar Sigurðsson
Aðstoðarskólastjóri
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is