Rannsókn á loftgæðum í skólahúsnæði Grundaskóla

Vikuna 1.-5. febrúar munu sérfræðingar frá Verkfræðistofunni VERKÍS og starfsmenn framkvæmdasviðs Akraneskaupstaðar taka sýni í kennsluhúsnæði Grundaskóla. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna stöðu loftgæða sem og ástand húsnæðis. Fjölmörg sýni verða tekin úr loftklæðningum, gólfdúkum, ryksýni tekin úr kennslustofum, sýni tekin úr loftræstikerfum o.s.frv. Sýnin verða síðan send til frekari rannsóknar og ræktunar hjá Náttúrufræðistofnun.

Ástæða þessarar rannsóknar eru ábendingar frá starfsmönnum, foreldrum og nemendum í Grundaskóla um að loftgæði séu ekki góð og komið hafa tilkynningar um að einstaklingar hafi fundið til einkenna og jafnvel orðið veikir. Þessi einkenni komi eingöngu fram eftir dvöl í kennsluhúsnæðinu en ekki á öðrum stöðum.

Skólastjórn Grundaskóla og bæjaryfirvöld leggja mikla áherslu á að staða þessara mála verði skoðuð af færustu sérfræðingum og brugðist verði við niðurstöðum án tafar ef ástæða er til.

Skólastjórn Grundaskóla mun senda út frekari upplýsingar um stöðu mála og niðurstöður þessarar rannsóknar um leið og þær liggja fyrir.

Með skólakveðju

Skólastjórn Grundaskóla.