Nú líður að samræmdum könnunarprófum í grunnskólum í 4., 7. og 10. bekk. Að vissu marki er ákveðinn sjarmi yfir þessum prófum því nemendur, kennarar og foreldrar setja sig í stellingar og allir reyna að ná sem bestum árangri. Í framhaldinu fer fram árleg umræða um niðurstöður prófa og þá er því miður sjaldnast umræðuefnið að börnin hafi staðið sig vel og gert sitt besta. Oftar en ekki snýst umræðan um hversu börnin eru illa stödd og hvað gekk illa.
Aðrir benda á að prófin séu illa gerð og oft er sjónum beint að misgáfulegum lestextum sem menn ræða síðan fram og aftur á opinberum vettvangi. Spurt er hvað skipti mestu að börnin læri og tileinki sér. Er verið að prófa þá þætti á samræmdum könnunarprófum?
Við í Grundaskóla hættum okkur ekki frekar inn í þessa umræðu að sinni enda minnir hún helst á umræðu um hvort síðasta áramótaskaup hafi verið gott eða slakt. Við minnum hins vegar á að prófin eru könnunarpróf með öllum sínum kostum og göllum. Frammistaða á einu prófi er ekki endanlegur dómur fyrir einn né neinn heldur tilraun til að mæla stöðuna. Fjöldi atriða getur haft áhrif á árangur því af hverju ættu t.d. allir að vera jafnvel upplagðir til próftöku þennan ákveðna dag.
Aðalatriðið er að gera sitt besta. Námið er einstaklingsmiðað og stöðluð könnunarpróf geta aldrei verið sanngjörn fyrir alla eða algildur mælikvarði á hæfileika eða árangur hvers og eins.
Við sem stöndum næst börnunum skulum ekki láta ótta eða kvíða einkenna þetta tímabil heldur styðja nemendur í að gera sitt besta. Samræmd könnunarpróf eiga að vera eitt af mörgum verkefnum okkar en ekki eitt stórt og jafnvel nær óyfirstíganlegt vandamál.
Margar sögur eru til af prófatöku og skemmtilegum uppákomum. Hér á undan er þess getið að sumir telja árangur grunnskólabarna vera slakan og að allt sé hreinlega á niðurleið. Oft er spjótunum beint að t.d. lesskilningi og málfræðikunnáttu. Oft vill gleymast að tungumál og orðaforði þróast og orð eða hugtök sem eldri kynslóðir þekktu eru ekki brúkuð í dag.
Í þessu samhengi er vert að minnast á að Nemendafélag Grundaskóla hefur ályktað á málþingum sínum um lesskilningsverkefni á samræmdum prófum. Það er mat nemenda að lesskilningsverkefni séu stundum í engum takti við nútímann og því séu prófin gölluð. Nemendur efast hreinlega um að hinir fullorðnu geti sjálfir leyst sum verkefnin sem eru lögð fyrir ungmennin. Oft sé spurt út í orð sem eru illskiljanleg, óþörf og jafnvel úreld. Þetta er áhugavert sjónarmið og minnir á skólasögu um orðið ,,frímerki."
Eitt sinn var lesskilningspróf lagt fyrir í skóla. Orðið ,,frímerki" kom fyrir í textanum og einn nemandinn kallaði eftir aðstoð. Nemandinn sagði kennaranum að hann hefði ekki hugmynd um hvað frímerki væri. Kennaranum þótti þetta frekar kjánalegt og svaraði að auðvitað vissu allir hvað frímerki væri. Nemandinn gaf sig ekki og yppti bara öxlum. Kennarinn tók sig þá til og útskýrði að frímerki væri svona límmiði sem fólk keypti út í búð eða á pósthúsi. Miðinn væri síðan sleiktur og settur á kort eða bréf og virkaði þannig sem greiðsla fyrir póstsendinguna. Nemandinn hlustaði með athygli á skýringuna og svaraði því til að hann hefði aldrei heyrt þetta áður. Á póstkortum og bréfum heima hjá honum væri bara stimpill með dagsetningu. Kennarinn furðaði sig mikið á þessu og hugsaði hvert væri þessi unga kynslóð að fara, vissi ekki einu sinni hvað frímerki væri. Þetta væri algjörlega ótrúlegt og enn eitt dæmið um að bráðum kynni enginn eða skildi íslensku á þessu blessaða landi. Eftir prófið ákvað kennarinn að herða á nemendum sínum í náminu og benti m.a. á nauðsyn þess að vera dugleg að lesa bækur og efla lesskilning. ,,Frímerki" væri dæmi um orð sem allir ættu að þekkja. Nemendurnir sátu skömmustulegir undir þessu enda var alveg rétt að þeir máttu vera duglegri að lesa. Nemandinn sem áður hafði spurt út í frímerkið rétti upp hönd og kennarinn spurði hvað vantaði. Nemandinn stóð upp og sagðist ekki enn skilja þetta orð ,,frímerki." Nú svaraði kennarinn hátt og skýrt hvort það væri ekki augljóst. Nei, svaraði nemandinn djúpt hugsi. Þú sagðir að frímerki væri merki sem maður þarf að kaupa út í búð og er þá ekki frítt merki. Frímerki er miði sem þarf að sleikja og setja á bréf til að borga fyrir póstsendinguna en þarf ekki lengur þar sem það nægir að nota stimpil. Hver fann eiginlega upp á því að kalla þetta frímerki og er það gáfulegt?
Nú getur hver metið fyrir sig hvort skilningur nemandans sé ekki bara ágætur.
"...Ég held við ættum stundum að hlusta aðeins betur á hugrenningar þeirra, sem erfa skulu land, því kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur komið fram með svörin, þar sem sigldum við í strand..." (Söngtexti: Ég labbaði um bæinn)
SAS
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is