Þessa dagana er unnið að umfangsmiklum breytingum á bókasafni Grundaskóla. Í sumar var ákveðið að gera skipulagsbreytingar sem felast m.a. í breyttri uppröðun, fækka bókum og setja skýrari stefnu við innkaup nýrra bóka o.s.frv. Með því að lækka bókarekka er auðveldara að sjá yfir safnið og það verður opnara. Búið er að setja upp hópvinnuborð og betri aðstöðu til að vinna með spjaldtölvur og önnur snjalltæki. Þá hefur afgreiðslutíma bóka verið breytt en nemendur koma nú 8:30 en ekki 8 eins og áður var. Vonast er til að þessi breyting skapi betra næði í lestrarstund fyrst á morgnana.
Við tókum Ingibjörgu Ösp Júlíusdóttur, bókasafnsfræðing tali og spurðum út í þessa vinnu.
Er breytingaferlinu lokið?
,,Nei, við erum að vinna enn að þessu en þetta er samt komið vel á veg."
Hver eru markmið þessara breytinga?
,,Við viljum breyta bókasafninu í einskonar upplýsingaver og ævintýraveröld fyrir nemendur. Hingað eiga nemendur að sækja því það er svo margt áhugavert að sjá. Við höfum t.d. áhuga á að gera vísindum meiri skil s.s. merkum uppgötvunum og ýmsum undrum náttúrunnar. Hugmyndin er að breyta um kúrs og hafa t.d. ævintýrahorn eða jafnvel tjald þar sem nemendur geta skriðið inn í og komist í einhvern bókafjársjóð."
Er hugmyndin að auka notkun á spjaldtölvum?
,,Já, við höfum spjaldtölvur til að lána nemendum. Hins vegar er eitt að eiga tækið og annað að nota það. Markmið okkar er að auka fræðslu í notkun á spjaldtölvum og hvernig við getum nýtt þessi tæki í náminu."
Er það satt að þið hafið skipt út bókum?
,,Já, við fórum í umfangsmikla tiltekt og fjarlægðum ýmislegt sem var úr sér gengið eða hentaði ekki og hugmyndin er að við sækjum frekar fram í barna og unglingabókmenntum. Við höfum einnig áhuga á að setja aukið vægi í notkun nýrrar tækni og reyna að hrífa nemendur og foreldra í að lesa meira."
Tekur bókasafn Grundaskóla á einhvern hátt þátt í þjóðarátaki um læsi?
,,Ekki spurning. Við leggjum hreinlega allt undir að efla lestur. Við reynum að kynna nemendum áhugaverðar bækur og erum tilbúin til að aðstoða foreldra með val á bókum til að lesa heima. Bókasafnið hefur auk þess fjárfest mikið í nýjum bókum og munum gera það áfram með öflugum stuðningi t.d. hollvina skólans. Hollvinafélagið hefur tvö síðustu ár gefið safninu mjög flottar bækur sem nemendur eru áhugasamir um að lesa."
Við þökkum Ingibjörgu Ösp fyrir spjallið og hvetjum nemendur og foreldra til að heimsækja safnið og kynna sér þá þjónustu sem er í boði.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is