Um leið og við óskum ykkur gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári viljum við upplýsa ykkur um skipulag skólastarfsins.
Frá og með næsta mánudegi (11. janúar 2021) munum við hefja nánast hefðbundið skólastarf samkvæmt stundatöflu hjá hverjum árgangi. Við ætlum að reyna að keyra starfið upp meðan ástand í samfélaginu gefur okkur tækifæri til en áfram verður þó lögð mikil áhersla á sóttvarnir. Gestkomur eru áfram takmarkaðar í skólann en boðað er til funda með foreldrum ef nauðsyn krefur. Hvetjum við foreldra til að vera áfram í góðu sambandi við umsjónarkennara barna sinna ef eitthvað er t.d. með að hringja eða senda tölvupóst. Rafrænir fundir á Teams hafa einnig skilað miklu á síðustu vikum og full ástæða til að nýta tæknina til að bæta sambandið milli heimilis og skóla.
Skipulag skólastarfs 1. -10. bekk
Nemendur eiga sömu heimastofur og þeir áttu fyrir áramót. Kennsla verður samkvæmt stundatöflu frá og með mánudegi og eru íþróttir, sund og list- og verkgreinar þar með taldar. Leitast verður við að halda árgöngum sem mest aðskildum í bóklegum fögum og einnig munu nemendur vera í ákveðnum hólfum í matartímum í hádeginu. Verður það fyrirkomulag kynnt fyrir nemendum þegar þeir koma í skólann. Matur er á boðstólum frá og með mánudeginum fyrir alla þá sem hafa skráð sig í mat í gegnum Matartorg.
Við vonumst til að geta haldið góðri stöðu áfram og að smit rjúki ekki upp í samfélaginu. Ef nauðsyn ber til að endurskoða þetta fyrirkomulag munu upplýsingar um það berast til foreldra í tölvupósti og á vefsamskiptakerfum skólans.
Nú verða allir að leggjast á eitt og standa sig á lokametrunum. Hugum vel að persónubundnum sóttvörnum og förum varlega.
Við gerum þetta saman
Með skólakveðju,
Skólastjórn Grundaskóla
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is