Skólastarf komið á fulla ferð

Upp er runninn 4. maí og takmörkunum varðandi skólahald vegna Covid hefur verið aflétt að mestu. Þetta þýðir ekki að sóttvörnum sé hætt. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að hugað sé vel að handþvotti, sótthreinsun o.fl. Við viljum einnig síður fá gesti eða utanaðkomandi inn í skólabygginguna á starfstíma. Áhersla er lögð á skipulögð þrif og sótthreinsun á helstu snertiflötum. Starfsfólk og nemendur munu leggja sig alla fram við að fá ekki bakslag í þróun mála í baráttunni við þennan hættulega vírus.

Skólastjórn vill nota þetta tilefni til að þakka öllum þeim sem mynda skólasamfélagið í Grundaskóla fyrir að standa sig jafnvel og þeir eru að gera. Starfsfólki fyrir að vera faglegt, jákvætt og lausnamiðað. Nemendum fyrir að vera virkir, jákvæðir og fara eftir þeim ströngu reglum sem þeir þurfa að hlíta og foreldrum fyrir að vera jákvæðir og styðjandi. Saman erum við sannanlega sterk liðsheild sem leikur sjaldnast betur saman en einmitt nú þegar að á reynir.

Höldum áfram að gera vel, förum eftir reglum og sýnum samfélagslega ábyrgð. Nokkrir punktar sem við þurfum að gæta vel að á næstunni:

· Halda fullorðnum innan við 50 í hverju rými (starfsfólki og gestum).

· Það séu um 2 m á milli fullorðinna einstaklinga á kaffistofum og þar sem kostur er.

· Engar fjöldatakmarkanir gilda um nemendur

· Aðgengi að skólanum er takmarkað. Skrifstofa skólans er opin alla virka daga vikunnar og geta gestir fengið upplýsingar og aðstoð þar.

 

Kær kveðja

Skólastjórn