Um þessar mundir er 10. bekkur að vinna að skemmtilegu verkefni sem heitir Stefnan sett og endar á að nemendur mæta í sviðsett atvinnuviðtal.
Áður en nemendur mæta í viðtalið fer fram undirbúningsvinna sem unnin er í gegnum hinar ýmsu námsgreinar eins og ensku, upplýsingatækni, dönsku, náms- og starfsfræðslu, íslensku og stærðfræði.
Áherslan í verkefninu er á þætti eins og styrkleika, sjálfsþekkingu og áhugasvið auk þess sem þeir læra um hinar ýmsu námsleiðir, vinnumarkaðinn, launaseðilinn og skatta.
Nemendur gera ferilskrá, taka styrkleikakönnun ásamt fleiru.
Gestir í heimsókn
Í tengslum við verkefnið höfum við fengið góða gesti í heimsókn. Við fengum kynningu frá VR þar sem nemendur lærðu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, Þorgrímur Þráinsson kom með fyrirlesturinn ,,Ástfanginn af lífinu” auk þess sem nokkrir foreldrar úr árganginum kynntu störf sín.
Við fengum kynningu á námi og störfum iðjuþjálfa, prests, flugstjóra og sjúkraflutninga- og slökkviliðsfólks.
Kynningarnar vöktu mikla lukku og voru nemendur áhugasamir og hæstánægðir með kynningarnar.
Verkefnamiðað nám
Í unglingadeildinni er unnið samkvæmt verkefnamiðuðu námi. Verkefnamiðað nám e. Project based learning er nemendamiðuð kennslu- og námsaðferð sem miðar að því að virkja nemandann í viðfangsefnum tengdum reynsluheimi nemenda.
Markmiðið er að nemendur vinni að heildstæðum verkefnum t.d. tengdum nærumhverfinu, atvinnulífinu eða alþjóðasamfélaginu.
Þetta verkefni fellur einstaklega vel að þessari hugmyndafræði og auðvelt fyrir nemendur að sjá tilgang með vinnunni sem eykur áhuga þeirra og virkni.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is