Þá er önnur vika skólaársins hafin. Fyrsta vikan var fjörleg og skemmtileg og fyrirboði þess sem koma skal. Við erum að ná takti og húsnæðið allt að komast í lag. Nemendur í hverjum árgangi eru að finna sig á nýjum kennslustofum og að kynnast nýju starfsfólki. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við öll stöndum vel að börnunum okkar. Rannsóknir sýna og sanna að þeim sem vegnar vel í námi og starfi hafa góðan aðbúnað í nánasta umhverfi sínu s.s. innan fjölskyldu og meðal vina. Góður aðbúnaður vísar til nokkurra grunn þátta. Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Hér reynir á samtakamátt foreldra og forráðamanna barna að fylgja reglum.
Það er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn komi á reglu og rútínu hjá börnum sínum og þá ekki síst núna þegar skólinn byrjar starfsemi sína á ný. Hver nemandi þarf nægan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og þá er mikilvægt að vera úthvíldur. Í þessu samhengi er vert að benda á að reglur um útivistartíma taka breytingu frá og með 1. september. Einnig er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn veiti skólagöngu barna sinna athygli, spyrja hvað var skemmtilegt að gera o.s.frv. Mikilvægt er að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrja börnin með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur örvandi áhrif á nemendur sem og alla aðra.
Sömu lögmál gilda um íþróttir og tómstundaiðkun. Veitum áhugamálum barna okkar athygli og hvetjum þau til dáða. Styðjum þau í að eignast vini og hlúum að félagslegum samskiptum þar sem allir fá að vera með.
Velferð, hugarfar og hvíldartími skiptir máli. Hvert barn, dóttir sem sonur, þarfnast ástar, hlýju, hvatningu og umhyggju. Leggjum öll okkar að mörkum og stuðlum að heilbrigðu umhverfi til uppvaxtar á Skaganum.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is