Í dag, miðvikudag höldum við upp á 40 ára afmæli Grundaskóla en hann var fyrst settur 6. október 1981. Við fögnum farsælu skólastarfi þar sem stofnunin hefur vakið athygli fyrir frumkvæði, metnað og góðan árangur. Skólinn er öflug menntastofnun sem hefur notið mikillar velgengni öll starfsár sín. Þá velgengni má helst þakka samstarfi allra þeirra sem koma að skólastarfinu nemendum, foreldrum, starfsmönnum og stuðning Akraneskaupstaðar.
Á níunda áratug síðustu aldar var mikil skólamálaumræða um að nauðsynlegt væri að gera gagngerar breytingar á skólum og breyta kennsluháttum. Grundaskóli var í upphafi stofnaður í anda nýrra hugmynda og strax á fyrsta ári varð skólinn þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í kennslumálum. Skólinn var oft kenndur við umræðu um svokallað opið skólastarf en slíkir skólar voru þekktir fyrir að brjóta upp bekkjarstarf og halda teymisvinnu á lofti.
Á fyrstu starfsárum Grundaskóla voru ekki allir bæjarbúar sammála um hugmyndafræði og starfshætti skólans og í eitt skipti var skólanum lýst sem allsherjar lausagöngufjósi. Þessi lýsing hefur oft verið tekin upp og rædd innan og utan skólans en í stað þess að líta á þessa lýsingu sem neikvæða hafa menn séð þessa umsögn sem hin bestu meðmæli. Skólinn á að vera lifandi vinnustaður sem kemur til móts við ólíkar þarfir og hæfileika nemenda.
Frá fyrsta degi hefur skólastarfið byggt á ákveðnum grunngildum sem eru samvinna, traust og virðing. Áhersla er lögð á að hafa trú á nemendum og byggja á styrkleikum þeirra. Allir geta gert eitthvað en enginn allt. Hagsmunir nemenda hafa ávallt verið í fyrirrúmi öll þessi fjörtíu ár.
Grundaskóli er góður skóli af því að þar eru frábærir nemendur, öflugur foreldrahópur og góðir starfsmenn. Lengst af fór Guðbjartur Hannesson (Gutti) fyrir skólastarfinu og hugmyndafræði hans og áherslur lifa enn í dag. Annar skólastjóri skólans var Hrönn Ríkharðsdóttir en hún hætti störfum sem skólastjóri við skólann árið 2016 eftir farsælan feril sem kennari og stjórnandi í skólastofnunum Akraneskaupstaðar.
Í dag starfa um eitt hundrað og tuttugu starfsmenn við skólann og nemendur eru tæplega 680. Grundaskóli er orðinn einn af fjölmennustu skólum landsins en þrátt fyrir það er enn sama hugsun við líði og á fyrstu starfsdögunum. Mikill metnaður fyrir skólastarfinu og skólasamfélagið samstillt í að sækja fram og gera ávallt sitt besta.
Grundaskóli nýtur þess á margvíslegan hátt að á bakvið skólastarfið stendur samstilltur hópur sem er reiðubúinn til að leggja hönd á plóg þegar á þarf að halda. Hollusta við skólann er kannski besta umsögnin um gott skólastarf. Er skólinn hlaut árið 2005 fyrstur grunnskóla íslensku menntaverðlaunin var eftirfarandi umsögn höfð eftir nemendum. „Við útskrifumst úr Grundaskóla en við yfirgefum skólann aldrei.“
Fjölmargir af núverandi starfsmönnum skólans eru fyrrverandi nemendur. Í dag er hlutfallið 35% og fer hækkandi með hverju árinu. Hér er gott að nema og hér er gott að starfa. Grundaskóli er fyrirmyndar vinnustaður og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir framsækið skólastarf og farsælt starfsmannahald. Til marks um gæði vinnustaðarins má geta að margar umsóknir berast um hvert auglýst starf og fagfólk skipar hverja kennarastöðu og menntunarstig er hátt.
Þegar 40 ára starfsafmæli Grundaskóla er fagnað ber að þakka öllum þeim sem lagt hafa skólanum lið á þessum árum og óska þess að framtíðin verði jafn farsæl og hingað til. Það er ekki sjálfgefið fyrir Akraneskaupstað að eiga svo öfluga skólastofnun. Við sem nú störfum við skólann heitum því að halda merki Grundaskóla hátt á lofti og leggja okkur öll fram við að reka fyrirmyndarstofnun á allan hátt.
Grundaskóli stendur á tímamótum á þessu afmælisári. Framundan er gríðarleg uppbygging og endurbætur á skólahúsnæði stofnunarinnar. Allar þessar endurbætur taka mið af upphaflegum hugmyndum um skólastarf. Hugsjón og leiðarljós forvígismanna mun áfram blómstra í starfinu. Nýtt skólahúsnæði mun taka mið af nýjum kröfum og tækniþróun til framtíðar og uppbyggingaráform einkennast af miklum metnaði og skarpri skólasýn. Framtíð skólans er björt og hér mun áfram unnið um ókomin ár að þróttmiklu og árangursríku skólastarfi til heilla fyrir nemendur okkar og bæjarfélag.
Ég óska nemendum, starfsfólki og Akurnesingum öllum til hamingju með 40 ára afmæli Grundaskóla.
Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri Grundaskóla
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is