Til upplýsingar um stöðu mála

Það hefur vart farið framhjá neinum að allar skólastofnanir eiga fullt í fangi með að halda úti hefðbundnu skólastarfi eins og stjórnvöld hafa ákveðið. Fjöldi smit-tilfella í samfélaginu teygir sig inn í hópinn, bæði til nemenda og starfsmanna.

Þessa stundina er skólastjórn Grundaskóla að vinna í smitrakningu og leysa úr nokkrum málum er komu upp fyrir helgina. Smit kom t.d. upp í 1. bekk/Frístund og er allstór hópur kominn í sóttkví. Nemendur í þessum hópi sem ekki voru í skólanum á föstudag eða hafa fengið Covid fyrir geta mætt í skólann á mánudag. (Einhverjir úr þessum hópi kunna að hafa fengið tilkynningu um sóttkví en sú skráning er vegna mistaka og verður vonandi leiðrétt).

Í nokkrum öðrum árgöngum hafa á síðustu dögum einnig komið upp smit hjá nemendum og fjölskyldum og hefur skólastjórn beint þeim tilmælum til viðkomandi árganga að vera á varðbergi. Eins og staðan er í dag eru þau tilfelli ekki metin sem svo að það hafi bein áhrif á skólastarfið.

Mikilvægt er að allir hugi að persónulegum sóttvörnum og fari varlega. Rífleg þúsund smit greinast daglega í landinu og veruleg hætta er á að skólastarfið verði fyrir truflunum af þeim sökum. Ef smit kemur upp er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn upplýsi umsjónarkennara strax um stöðuna þannig að skólinn geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja frekari útbreiðlu innan skólans.

Í heild má segja að sóttvarnir skólans hafi haldið vel til þessa og vonandi verður framhald á því. Sú staða er fyrst og fremst að þakka góðri vinnu og samstarfi innan skólasamfélagsins.

Höldum áfram að gera okkar besta, við gerum þetta saman.

Bestu kveðjur,

Skólastjórn Grundaskóla