Um Byrjendalæsi og námsárangur

 
Mennta- og menningamálaráðherra lýsir því yfir í viðtali í Fréttablaðinu í dag fimmtudaginn 20. ágúst að árangri í lestri og stærðfræði hafi hrakað í skólum sem kenna eftir aðferðafræði Byrjendalæsis og að þessi kennsluaðferð hafi gefist illa.
Skólastjórnendur í Grundaskóla vilja upplýsa að þessi málflutningur á ekki við um nemendur í okkar skóla. Fimm árgangar ( 2001-2005) hafa farið í gegnum samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í 4. bekk og af þessum fimm árgöngum hafa tveir tekið að auki samræmd könnunarpróf í 7. bekk.
Til að gera langa sögu mjög stutta hafa allir árgangar verið yfir svokölluðu landsmeðaltali í stærðfræði í bæði 4. og 7. bekk og sumir langt yfir. Einn árgangur var örlítið undir landsmeðaltalinu í íslensku í 4. bekk en fjórir yfir því og báðir árgangarnir sem tekið hafa samræmd könnunarpróf í 7. bekk í íslensku voru yfir landsmeðaltalinu.
Við getum vissulega ekki svarað fyrir aðra skóla en það var í upphafi mat okkar að með kennsluaðferðum Byrjendalæsis gæfust fleiri og betri tækifæri til að vinna með lesskilning og orðaforða þvert á námsgreinar. Þess vegna var þessi leið valin og  árangur nemenda okkar styður það mat. Mikilvægt er að vandað sé til verka og ákvarðanir byggðar á faglegum forsendum. Svo var í okkar tilviki og því vekja orð ráðherrans furðu svo ekki sé dýpra tekið í árinni.
Hrönn Ríkharðsdóttir, skólastjóri,
Sigurður Arnar Sigurðsson, aðstoðarskólastjóri.