Á síðustu dögum hefur mikil umræða farið fram um eineltismál í samfélaginu. Hér er um mikilvæga og þarfa umræðu að ræða. Málefni sem allir eiga að taka til sín og hugleiða. Frásagnir einstaklinga og foreldra af reynslu sinni og erfiðum samskiptum við samferðarmenn eru oft á tíðum átakanlegar. Það þarf hugrekki til að standa upp og segja sögu sína. Aðrir eiga að sýna umhyggju og dug til að gera betur.
Einelti er ekki bara vandamál og viðfangsefni eins skóla. Frásagnir um samskiptavanda og einelti eru til frá á öllum tímum, meðal allra aldurshópa allt frá leikskólum til dvalarheimila fyrir aldraða. Hér er sannanlega ekki spurt um stétt né stöðu, kyn eða aldur.
Enginn á að þola illa meðferð sama hvort það beinist að barni eða fullorðnum. Ef marka má innlendar og erlendar kannanir segjast allt að 10-15 % svarenda hafa lent í einelti með einhverjum hætti. Slíkt er alltof hátt hlutfall. Hver einn einstaklingur er í raun of mikið ef út í það er farið.
Á síðustu dögum hefur umræða um eineltismál tengst Akranesi og Grundaskóla. Það er sár staðreynd en sannleikur engu að síður. Við sem störfum í skólanum tökum umræðuna nærri okkur en berum jafnframt umhyggju og virðingu fyrir málefninu. Skólafólk reynir hvað það getur og með öllum ráðum að vinna gegn samskiptavanda og vinna gegn einelti. Sem betur fer gengur oftast vel en því miður tekst í öðrum tilfellum ekki jafn vel upp.
Í Grundaskóla er markvisst unnið að forvörnum í öllum bekkjum skólans. Árlega eru sendir út spurningalistar til bæði foreldra og barna. Á hverju ári er haustvitnisburður lagður undir samtal um líðan í skólanum. Skólinn framkvæmir tengslakannanir til að greina hvort einhver eigi í samskiptavanda og í hverri viku er haldinn bekkjarfundur til að ræða samskiptamál. Stefna skólans, uppeldi til ábyrgðar, miðar einnig að því að bæta félagslega líðan og samskipti milli einstaklinga.
Á heimasíðu skólans og í samskiptakerfi má finna stefnu skólans í eineltismálum ásamt eyðublöðum ef menn vilja tilkynna um slíkt vegna barna sinna eða annarra barna. Sjá upplýsingar á eftirfarandi slóð: https://www.grundaskoli.is/is/skolinn/einelti
Ný könnun meðal foreldra nemenda í Grundaskóla sýnir að foreldrar telja almennt líðan barna sinna góða eða mjög góða í skólanum. Almennt eru foreldrar einnig ánægðir með þjónustu skólans og upplýsingagjöf. Ánægja með þá umsögn má þó ekki skyggja á þá staðreynd að fimm foreldrar svara að börn þeirra líði illa eða mjög illa.
Við höfum verk að vinna, í Grundaskóla, í öllum skólum, á öllum heimilum á Akranesi, á Íslandi og bara alls staðar.
Fram veginn gott fólk.
Höldum áfram okkar góða starfi og reynum ávallt að gera betur.
Með góðri kveðju,
Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is