Upplýsingar um stöðu mála í Grundaskóla

Hér kemur stutt samantekt um stöðu mála í Grundaskóla. Skólastjórn og kennarar hafa unnið dag og nótt við að glíma við heimsfaraldur Covid. Mörg smit eru í okkar samfélagi og þau smit fara þvert á fjölskyldur og aldurshópa. Í dag miðvikudaginn 19. janúar er verið að klára smitrakningu hjá fjórum nemendum og einum starfsmanni. Alls eru 270 nemendur og starfsmenn í leyfi, sóttkví eða veikir.

Nú er mikilvægt að allir sýni yfirvegun og ró. Margir eru órólegir yfir stöðunni en skólafólk gerir sitt besta til að halda úti skólastarfi en um leið að tryggja sem mestar og bestar sóttvarnir. Við hvetjum fólk til að lesa sér til á upplýsingasíðu almannavarna www.covid.is. Þar má lesa um ólík viðmið s.s. varðandi sóttkví, smitgát, einangrun, vinnusóttkví o.s.frv.

Það er ómetanlegt fyrir skólastjórn að fá sem mestar upplýsingar frá foreldrum og þegar grunur er um smit að nemendur mæti ekki í skólann. Smitrakning og skipulag sóttvarna er flókið verkefni og auðvelt að gera mistök. Ferlið er í stuttu máli þannig að þegar smit er staðfest á pcr. prófi hefur smitrakningarteymi almannavarna samband við skólann. Algengt er að slík skilaboð berist á milli kl. 20-23 á kvöldin. Þá fara skólastjórnendur í að meta aðstæður og flokka hverjir fara í smitgát og hverjir í sóttkví. Síðustu daga (virka daga sem helgar) hafa tilkynningar farið frá Grundaskóla frá 22 að kvöldi til 02 að nóttu til að tryggja sem best að smit berist ekki víðar í skólasamfélaginu.

Ef mistök verða hjá skólanum t.d. varðandi skráningu í sóttkví geta foreldrar/forráðamenn hafnað tilkynningu og þar með leiðrétt skráninguna. Skólinn bregst þá við í framhaldinu og leiðréttir útsendan lista í samræmi við nýjar upplýsingar.

Vandi skólastjórnar er mikill í þessari vinnu enda geta úrræðin verið mjög íþyngjandi fyrir einstaklinga og fyrirtæki eða stofnanir. Við reynum að vanda okkur eins og mögulegt er en þrátt fyrir það verða mistök s.s. vegna þess að upplýsingar skortir eða misskráning kemur til.

Nýlegt dæmi er að skólinn setti barn í sóttkví en skólastjórnendur höfðu ekki upplýsingar frá foreldrum um að viðkomandi hefði fengið covid áður. Annað dæmi er að skólinn setti barn ekki í sóttkví þar sem viðkomandi barn hafði fengið covid fyrr en tímasetning lá ekki fyrir. Í því tilfelli reyndust sex mánuðir liðnir frá smiti og samkvæmt reglum ver Covid-smitið ekki lengur varðandi sóttkvíarreglur almannavarna.

Af þessum tveimur dæmum má sjá að margt getur farið úr skorðum og því er gott að ítreka mikilvægi samstarfs skóla og heimila að leysa sem best úr málum. Grundaskóli hefur reynt síðustu vikur og mánuði að þjónusta börn og fjölskyldur sem hafa þurft að vera í varnarsóttkví vegna annarra veikinda. Þetta samstarf hefur gengið mjög vel þar sem foreldrar og skólafólk vinnur samhent að lausn mála.

Skólastjórn ítrekar enn og aftur tilmæli um persónubundnar sóttvarnir og að ef grunur er um smit að börn mæti þá ekki til skóla heldur fari í skimunarpróf hjá heilbrigðisyfirvöldum. Við hvetjum alla til að vera í góðu sambandi og koma mikilvægum upplýsingum strax til skólans.

Áfram gakk, allt okkar fólk. Við vinnum þetta saman.

Bestu kveðjur,

Skólastjórn Grundaskóla