Vel heppnaðir fundir með foreldrum og nemendum

Í haust breyttum við fyrirkomulaginu á haustfundum í 8. - 10. bekk. Foreldrar og börn mættu saman og ræddu mikilvæg málefni sem varða líðan og velferð nemenda og að þessu sinni voru það samskipti, líðan og símanotkun sem við tókum fyrir.  Um var að ræða nokkurs konar þjóðfundafyrirkomulag.

Markmiðið okkar með þessum breytingunum var að fá foreldra með okkur í lið og gefa þeim tækifæri á að ræða mikilvæg málefni með börnunum, hittast og kynnast í leiðinni öðrum foreldrum. Það er skemmst frá því að segja að þátttaka foreldra var frábær eða um 95% sem segir okkur að foreldrum fannst mikilvægt að mæta og að fá tækifæri til að láta sig málin varða.

Í kjölfarið sendum við út könnun til foreldra um fyrirkomulagið og hvað þeim fyndist um þessa nýbreytni. Þátttaka var góð og kom í ljós að lang flestir voru almennt ánægðir með breytinguna eða um 85%.  Um 90% foreldra fannst mikilvægt að fá tækifæri til að upplifa og heyra skoðanir annarra foreldra um málefni sem varða velferð barna sinna. Lang flestum fannst líka mikilvægt að fá tækifæri innan skólans til að setjast niður með öðrum foreldrum og ræða um skólann og líf barnanna.

Okkar tilfinning var einnig sú eftir samræður við bæði foreldra og nemendur að vel hafi tekist til og er stefnan sett að halda áfram að bjóða foreldrum að koma með börnunum á fundi eða fyrirlestra sem tengjast velferð þeirra.