Nú sem aldrei fyrr reynir á samtakamátt okkar í sóttvörnum. Það er mikilvægt að við öll í skólasamfélagi Grundaskóla hjálpumst að og hlúum vel að því veigamikla starfi sem fram fer í skólanum okkar og reynum eins og hægt er að koma í veg fyrir að röskun verði á starfinu út af Covid-19.
Foreldrar/forráðamenn eru vinsamlegast beðnir að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til með börnum sínum. Allir utanaðkomandi sem koma inn í skólann þurfa að bera grímu, gæta að 1 metra reglunni og huga að persónulegum sóttvarnaraðgerðum líkt og handþvotti og sprittun.
Búið er að grípa til viðeigandi ráðstafana innan skólans en í skólastarfi gildir um fullorðna 1 metra regla og grímuskylda í ákveðnum aðstæðum. Starfsmenn gæta mjög vel að persónulegum sóttvörnum og gæta varúðar í öllum verkum innan og utan skólans. Búið er að tryggja öll þrif á kennslusvæðum auk þess sem starfsmenn skólans sótthreinsa sameiginlega snertifleti kerfisbundið.
Reglur sóttvarnaryfirvalda um nálægðartakmarkanir gilda ekki um nemendur og því er skólastarfið ekki skert að neinu leyti. Aftur á móti er vel gætt að sóttvarnaraðgerðum fyrir nemendur líkt og handþvotti, sprittun og þrifum á milli hópa. Kennarar reyna að fylgja málum eftir sem og að leiðbeina börnunum eins og mögulegt er.
Það er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn sendi ekki börn sín í skólann séu þau með einkenni sem passa við Covid-19. Ávallt skal leita ráða hjá heilsugæslu eða hjá lækni komi upp grunur um Covid-19 smit. Við hvetjum foreldra/forráðamenn einnig til að vera í góðu samráði við umsjónarkennara og skrifstofu skólans. Í góðri samvinnu finnum við góða lausn á öllum málum.
Ef foreldrar og nemendur eru nýkomnir frá útlöndum er mikilvægt að fylgja þeim reglum sem eru í gildi á hverjum tíma, núna á að fara í hrað eða PCR-próf innan 48 klst. eftir komu og ekki koma í skólann nema neikvæð niðurstaða hafi komið úr prófinu. Sama regla gildir um starfsfólk skólans.
Allar frekari upplýsingar eru á síðunni www.covid.is og á um samfélagssáttmálann á slóðinni: https://www.covid.is/samfelagssattmali.
Espigrund 1
Sími: 433 1400
Netfang: skrifstofa(hjá)grundaskóli.is
Opnunartími skrifstofu:
Mán. - fim. 07:30 til 15:30.
Föstudaga til 13:25.
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: www.mentor.is / 433 1400 / skrifstofa(hja)grundaskoli.is